28.4.2007 | 11:29
Snorri fær styrk!
Nú er Snorralingurinn ég glöð
Landsbankinn hefur tekið sig til og styrkt Snorra verkefnið, en verkefnið er á vegum Þjóðræknifélags Íslands og gengur út á það að fólk á aldrinum 18 til 25 (ca.) kemur hingað til lands frá Bandaríkjunum og Kanada í þeim tilgangi að kynna sér land og þjóð og komast í snertingu við gamla föðurlandið. En eins og flest allir vita var fjöldinn allur af Íslendingum sem að fluttu til Vesturheims í kringum aldamótin 1900 og eiga mjög margir Íslendingar skyldmenni í Vesturheimi.
Ég tók þátt í Snorra West verkefninu árið 2005 og er það verkefni sambærilegt Snorraverkefninu, nema hvað að þar fara Íslendingar til Manitoba í Kanada og kynna sér Íslendingaslóðir, eða Nýja Ísland eins og það var kallað. Í Kanada kynntist ég mikið af góðu fólki og bjó hjá íslensk ættaðri fjölskyldu í mánuð og svo vorum við hjá verkefnisstjóranum okkar henni Wöndu Anderson í viku, ásamt því að dvelja í viku í Winnipeg. Frá þessari ferð á ég nokkrar af mínum bestu minningum og hef ég sjaldan skemmt mér jafn vel og mætt jafn mikilli velvild sem kemur frá þessu frábæra fólki sem kallar sig Vestur-Íslendinga. Fáir eru jafn stoltir af uppruna sínum og þeir, en einstaklega gaman er að sjá hversu vel íslenskan hefur varðveist og íslenskir siðir og venjur.
(Mynd. Hér erum við Snorra West þátttakendurnir við minnismerki í Gimli)
Í gegnum Snorra West verkefnið hefur maður kynnst krökkum úr Snorra verkefninu. Í fyrra fengum við fjölskyldan 4 þátttakendur í Snorraverkefnunu í kvöldmat til okkar og svo fór ég með þau í smá rúnt um borgina og sýndi þeim áhugaverða staði. Allir eiga þessir krakkar það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á Íslandi og dvöl þeirra hér hefur í mörgum tilfellum orðið til þess að þau hafa snúið aftur og jafnvel dvalið hér í einhvern tíma. Þessi tengsl eru mjög mikilvæg bæði fyrir okkur Íslendinga og afkomendur okkar í Vesturheimi og gleðst ég mjög svo yfir þeim tíðindum að Landsbankinn ætli að taka sig til og styrkja þetta góða verkefni. Vinnan í kringum bæði Snorra og Snorra West verkefnin eru unnin mest megnis í sjálfboðavinnu og gestrisni þessa fólks er hreint út sagt ótrúleg.
Landsbankinn hefur að undanförnu verið að styrkja menningarmálefni, t.d. leikhúsið Vesturport svo dæmi sé nefnt og gott að sjá svona sterkan bakhjarl við íslenskt menningarlíf.
(Hérna erum við Snorra West þátttakendur í kvöldverði til heiðurs forsætisráðherra Íslands og ríkisstjóra Manitoba fylkis)
(Hér eru þátttakendur í Snorra verkefninu árið 2005 í heimsókn á Akureyri)
(Ég með frábæru host fjölskyldunni minni á heimfarardaginn)
(Snorra West-farar við heimkomu í Leifstöð 8. ágúst 2005...skemmtilegasti hópurinn!)
Hérna eru slóðir inn á heimasíðu Snorra verkefnisins og Snorra West verkefnisins:
www.snorri.is
www.snorriwest.ca
Landsbankinn styrkir Snorraverkefnið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.